cloudy

9°C

Ísafjörður

cloudy

8°C

Hornbjargsviti

Hornstandir og Jökulfirðir – leyfum landinu að njóta vafans

Leyfum landinu að njóta vafans

Að undanförnu hefur farið fram töluverð umræða um Hornstrandarfriðlandið og nágrenni þess m.a Jökulfirði ástæða þessarar miklu umræðu nú má eflaust rekja til hinnar umdeildu vegagerðar í Leirufirði árið 2005, sitt sýnist hverjum um þá framkvæmd eins og gengur. Í mínum huga var vegagerðin í Leirufirði slys sem menn hafa enn ekki séð fyrir endann á, en vegagerð um alla Jökulfirði og Hornstrandir yrði meiriháttar stórslys. Það er í raun með ólíkindum að menn skuli yfirleitt vera að tala um vegagerð á þessum slóðum, ekki hefur gengið svo vel að koma á almennilegu vegakerfi á milli byggðra bóla á Vestfjörðum þar sem þörfin fyrir vegasamgöngur er svo sannarlega fyrir hendi.

Árið 2005 var gerður svokallaður Vaxtarsamningur Vestfjarða þar sem fjölmörg fyrirtæki og sveitarfélög á Vestfjörðum ásamt Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu koma að með fjármagn og þekkingu. Samningur þessi gildir frá árinu 2005 til 2008 og byggist á nýjum aðferðum við að styrkja hagvöxt einstakra svæða, í þessu tilfelli Vestfjarða. Markmið með þessum samningi er að auka samkeppnishæfni svæðisins, efla hagvöxt þróa og styrkja helstu vaxtagreinar.

Í Vaxtarsamningi Vestfjarða eru settar fram fjölmargar tillögur sem allar falla undir markmið samningsins. Ein af þessum tillögum fjallar um stofnun svokallaðrar Hornstrandarstofu sem á að vera einskonar rannsóknar og þekkingarstofa. Í rökunum fyrir þessari tillögu kemur m.a. fram eftirfarandi ,,Hornstrandir og Jökulfirðir eru langstærstu óbyggðir Íslands þar sem engin vélknúin umferð er á landi. Sérstaða svæðisins er óumdeild og ber að veita henni enn frekari athygli með stofnun Hornstrandarstofu.”

En hver er þessi sérstaða? Hvað er það við þetta svæði sem hleypir svo miklum hita í menn, hver er sérstaða Jökulfjarða og Hornstranda umfram önnur svæði landsins? Af hverju sækir fólk svo mikið í þetta svæði sem raun ber vitni? Jökulfirðir hafa ekki verið í byggð í rúmlega hálfa öld, engar vegasamgöngur voru inn á svæðið þar til hinn umdeildi Leirufjarðarvegur var lagður. Engin vélknúin ökutæki hafa verið á þessu svæði frá því að það lagðist í eyði, þar til fyrir nokkrum árum, að safnast hafa upp nokkrar stórvirkar vinnuvélar utarlega í Jökulfjörðum og fer þar nú fram umfangsmikil hafnargerð.

Sjálfur hef ég farið um Jökulfirði á hverju einasta ári frá því að ég man eftir mér. Einkum hef ég dvalið þar yfir sumartímann. Ég hef stundað refaveiðar á þessu svæði í nokkra áratugi, fyrst með föður mínum, sem fæddur er þar og uppalinn, og síðan í félagi við annan mann. Ég hef margoft gengið bæði fjörur og fjöll á þessu svæði og tel mig því vera farinn að þekkja það nokkuð vel, bæði kosti þess og galla. Síðustu 6 árin hef ég og fjölskylda mín, ásamt annarri fjölskyldu, átt sumarbústað í hinum fræga Leirufirði.

Í mínum huga hefur sérstaða Jökulfjarða og Hornstranda falist í hinni ósnortnu náttúru, fjölskrúðugum gróðri og fuglalífi, sögu svæðisins og þess fólks sem þar bjó, oft við þröngan kost og erfiðar aðstæður. Helsta sérstaðan finnst mér þó vera kyrrðin og friðsældin sem er engu lík enda svæðið laust við bílaumferð og skarkala þéttbýlisins. Á góðviðrisdögum hefur kyrrðin verið slík að heyra hefur mátt mannamál í mörg hundruð metra fjarlægð. Enda þótti ekki tiltökumál á árum áður að kalla yfir fjörðinn (Leirufjörðinn) og óska eftir því að vera ferjaður yfir með báti, eins og fram kom í viðtali við Alexander Einarsson frá Dynjanda. Í gegnum árin hef ég verið þeirra ánægju aðnjótandi að hitta fjöldan allan af ferðamönnum á þessum slóðum, bæði innlenda og erlenda ferðamenn. Upplifun þessa fólks hefur öll verið á einn veg, ósnortin náttúra, friðsæld, kyrrð, náttúrufegurð.

Aðgengi að Jökulfjörðum var framan af frekar erfitt þegar minna var um öfluga báta heldur en nú er. Undanfarin ár hafa verið að byggjast upp við Djúp, myndarleg ferðaþjónustufyrirtæki sem hafa í sinni þjónustu góða báta af ýmsum stærðum og bjóða upp á tíðar áætlana- og leiguferðir, bæði um Hornstrandir og Jökulfirði. Fatlaðir og aldraðir hafa getað nýtt sér þjónustu þessara báta jafnt sem aðrir og er þetta í raun mun þægilegri og fljótlegri ferðamáti heldur en að skröltast um í bíl, klukkutímum saman, yfir úfna vegarslóða. Úr því að ekki voru lagðir vegir til Jökulfjarða og Hornstranda fyrir meira en hálfri öld, á meðan fólk stundaði búskap þar, þá þarf varla á þeim að halda í dag.

Hvernig viljum við sjá þetta svæði í framtíðinni? Hvaða hagsmuni höfum við af því? Hverjir hafa hagsmuni af því? Er það markmið að skófla inn sem flestum ferðamönnum á svæðið, jafnvel í rútum, viljum við getað stjórnað því hverjir eða hversu margir koma á svæðið? Getur verið að ,,sérstaðan” sem ég taldi að fælist í þessu landsvæði og ég nefndi hér að ofan fari minnkandi? Getur verið að innan fárra ára verði komnir vegir um alla firði með tilheyrandi bílaumferð? Svo virðist sem einstaka landeigendur á svæðinu séu smátt og smátt að búa til vegi og hafnir með stórvirkum vinnuvélum án þess að nokkuð sé að gert . Hver verður ,,sérstaðan” þá?

Friðland eða þjóðgarður? Ekki ætla ég að hafa skoðun á því eins og er, en ef það er það sem þarf til að vernda ,,sérstöðu” svæðisins þá er ég hlynntur því. Betra þætti mér þó að landeigendur og aðrir hagsmunaaðilar næðu góðri sátt um hvernig best sé að nýta, viðhalda og vernda ,,sérstöðuna”, án atbeina utanaðkomandi aðila.

Mörgum spurningum er ósvarað um Hornstrandir, Jökulfirði og nálæg svæði. Í dag hefur engin ákvörðun verið tekin um framtíðarskipulag þess, hvorki af landeigendum (sem eru æði margir) hagsmunaaðilum né þar til bærum yfirvöldum eða stofnunum. Á meðan svo er ástatt skulum við leyfa landinu að njóta vafans og láta það óáreitt fyrir vegagerð og umferð vélknúinna ökutækja. Það hefur aldrei verið talin góð aðferð að skjóta fyrst og spyrja svo.

Með baráttukveðju,
Hallgrímur Magnús Sigurjónsson, Ísafirði.

SHARE